Efst á baugi
Mikill kraftur var lagður í framleiðslu á fjölbreyttri fræðslu fyrir félagsmenn IÐUNNAR á árinu. Vegna Covid-19 var minna um staðnám en áður en rík áhersla lögð á fjarnám og stuðning til félagsmanna.
Fjölbreytt fræðsluframboð og nýjungar í framsetningu námskeiða einkenndi liðið starfsár þótt að enn sem komið er sé töluvert minna um staðnám en áður vegna Covid-19. Allt kapp var lagt á að halda úti góðu úrvali vefnámskeiða til að mæta þörfum félagsmanna.
Veldu grein til að kynna þér hvað einkenndi fræðslustarfið:
Það sem stóð upp úr á starfsárinu 2020-2021 er að í byrjun nóvember varð IÐAN loks viðurkennd af Institute of the Motor Industry (IMI) í Bretlandi til að kenna rafbílanámskeið á nokkrum þrepum. Mikil vinna fór í það að fá IÐUNA fræðslusetur vottaða af IMI starfsárið þar á undan. Í raun má rekja þessa vinnu allt til haustsins 2018 og því mikil gleði að þetta skuli hafa tekist þrátt fyrir ýmsar hindranir tengdar Covid-19. Fyrstu námskeiðin á þrepi 1 voru haldin strax í desember og fengu mikla athygli og skráning var góð. Á vorönninni hélt þessi mikli áhugi áfram og voru keyrð tvö námskeið til viðbótar á þrepi 1 og níu námskeið á þrepi 2.2. og samtals hafa því 112 einstaklingar farið í gegnum ýmist þrep 1 eða þrep 2.2. á liðnu starfsári og búast má við að áhuginn fyrir þessum námskeiðum haldi áfram að vera mikill og því spennandi tímar framundan.
Bygginga og mannvirkjasvið stóð fyrir fyrirlestraröð um sjálfbærni í byggingariðnaði í samvinnu við Grænni byggð sem eru samtök margra aðila í byggingariðnaði þ.m.t. IÐUNNAR og er vettvangur um sjálfbæra þróun byggðar. Alls voru haldnir sex fyrirlestrar sem sendir voru út í beinu streymi og komu margir aðilar að þeim. Fyrirlestrarnir eru aðgengilegir á Youtube rás IÐUNNAR. Ætlunin er að á komandi vetri verði haldið áfram með fyrirlestra um þetta málefni. Vegna heimsfaraldursins hefur fjöldi námskeiða verið sendur út í streymi og hefur það gefist sæmilega. Því munu flest námskeið sviðsins verða boðin áfram þannig meðfram staðbundinni kennslu. Einnig hefur áhersla verið lög á framleiðslu vefnámskeiða sem eru alltaf aðgengileg.
Fræðslustarf haustsins litaðist mjög af samkomu- og fjarlægðartakmörkunum vegna aðgerða stjórnvalda til að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19. Staðbundin námskeið sem voru á dagskrá ýmist féllu niður eða voru haldin með öðrum hætti s.s. í streymi, færð yfir í vefnám eða útfærð sem blanda af vefnámi og streymi. Námskeið sem féllu niður voru einkum þau sem byggðust á staðbundinni þjálfun sem ekki var hægt að koma við í kennslurýmum á vegum IÐUNNAR.
Þegar líða tók á vorið 2021 hófst staðbundin verklega kennsla að nýju sem kom sem viðbót við kennslu sem fór fram í streymi, með blandaðri kennsluaðferð eða vefnámi en sviðið telur mikilvægt að nýta sveigjanlega kennsluhætti eins og kostur er í fræðslustarfi sviðsins. Kennslan fór fram í fyrirtækjum og Vatnagörðum 20. Auk íslensku fór kennsla fram á pólsku og ensku.
Sviðið hannaði vefnám um viskí, klassíska kokteila, bjór og bjórstíla. Blönduð námsleið var skipulögð fyrir framlínustarfsfólk og millistjórnendur í veitingagreinum. Hlaðvarpsþættir og fræðslupistlar um gin, rekstur veitingahúsa á tímum Covid-19, um næringarfræði, fæðuóþol og fæðuofnámi, matarsóun og fleira.
Útfærsla á blandaðri námsleið í vínfræði sem kallast Vínstofan er í vinnslu. Nám í Vínstofu 1 er ætlað að bæta enn frekar þekkingu fagfólks í vínfræðum. Í framhaldi er ætlunin að vinna að skipulagi náms í Vínstofu 2. Unnið var áfram að því að skipuleggja barþjónanám sem blandað nám sú vinna komst ekki nógu vel í gang á árinu.
Erasmus+ verkefnið Food for Thought sem sviðið tók þátt í lauk í september 2020 en markmið verkefnisins var m.a. að meta hvort fjölbreyttari neysla almennings kalli á breyttar áherslur í kennslu og þjálfun nema og í raun alls starfsfólks í matvæla- og veitingagreinum. Námspakkarnir eru aðgengilegir á heimasíðu verkefnsisins á þremur tungumálum.
Matvæla- og veitingasvið tók virkan þátt í aðstoða nema í matreiðslu og framreiðslu sem misstu námssamning í kjölfar lokunar á veitingastöðum vegna samkomutakmarkana og nálægðarreglna stjórnvalda í samstarfi við Hótel- og matvælaskólann.
Nokkur stór verkefni fóru ekki fram vegna samkomutakmarkana sem settar voru í kjölfar COVID 19 s.s. eins og Íslandsmót matreiðslu- og framreiðslunema, Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framreiðslu svo dæmi sé tekið.
Eins og öllum er kunnugt setti Covid-19 stórt strik í reikninginn hjá okkur varðandi hefðbundið námskeiðahald. Þó var hægt að halda nokkur námskeið inn á milli s.s. málmsuðusmiðjur. Vegna þessa ástands var hafist við gerð stuttra fræðslumola sem voru birtir á Youtube-síðu IÐUNNAR fræðsluseturs. Þar má nefna ýmsa málmsuðumola og hluti tengda málmsuðu. Einnig voru teknir upp fræðslumolar varðandi ventlastillingu dieselvéla, gastæki; umgengni og notkun, hvernig náum við út slitnum boltum, að slá út pakkningar o.fl.
Beint fræðslustreymi var frá ýmsum aðilum s.s. Kempi í Finnlandi, Fronius í Austirríki og Force technology í Danmörku. Þá var tekið upp kaffispjall við Karl Hákon Karlsson framkvæmdastjóra Blikksmiðsins varðandi loftræsikerfi o.fl.
Starfsmaður sviðsins var mikið að vinna við eftirlit og prófanir í málmsuðu ásamt framleiðslueftirliti varðandi þrýstihylkjatilskipun Evrópusambandsins (PED).
Sviðið fékk viðurkenningu Vinnueftirlitsins til að aðstoða fyrirtæki varðandi áhættumatsgerð í fyrirtækjum. Þá fékk sviðið (IÐAN) leyfi til að meta starfsmenn kælitæknifyrirtækja og undirbúa fyrirtækin til vottunar samkvæmt Evróputilskipun. Þrjú fyrirtæki stóðust mat á síðasta ári og til stendur að votta einstaklinga þegar réttur tækjabúnaður fæst til þess. Þá var unnið að því að fá fræðslufyrirlestur um vetni og vetnisvæðingu en nánar um það á næsta ári.
Áfram var lögð rík áhersla á stuðning til félagsmanna vegna samdráttar í prentiðnaði og námskeið til fólks í atvinnuleit þeim að endurgjaldslausu. Fræðslustarf síðasta starfsárs var fjölbreytt þótt að það hafi markast mjög af aðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19. Staðbundin námskeið og verkleg þjálfun sem voru áætluð í stafrænni prentun féllu niður. Gerð var tilraun til að halda úti streymi í gegnum Teams á verklegri kennslu í nokkrum námskeiðum en ljóst er að verkleg kennsla í streymi er alltaf takmörkuð við ákveðna grunnþætti.
Sviðið hannaði og framleiddi vefnám um umbúðahönnun og framleiðslu, um vinnslu ljósmynda í Photoshop, umbrot bæklinga og einfalda hreyfihönnun.
Þá voru framleiddir hlaðvarpsþættir og fræðslupistlar um kiljubókaprentun, hönnunarsmiðjuna Fab-lab í Reykjavík, tölvuleikjahönnun, fjórðu iðnbyltinguna og sjálfbærni í prentiðnaði en síðastliðið vor hélt Kasper Larsen forstjóri KLS Pure Print í Danmörku erindi um sína vegferð í átt að sjálfbærni í rekstri.
Ekki var hægt að halda Dag prents og miðlunar á árinu en vonandi verður hægt að halda viðburðinn árið 2022 en ef til vill í ögn breyttri mynd en áður vegna aðstæðna.
Námsframboð heldur áfram að þróast og breytast, megináhersla er þó alltaf lögð á góða þjónustu við félagsmenn og á það að bregðast við þörfum þeirra og fyrirtækja um símenntun. Fyrirtæki vilja í auknum mæli fá sérsniðin námskeið sem eru haldin í húsnæði þeirra á vinnutíma og sviðið hefur reynt að bregðast við þeim óskum af fremsta megni.