image description

Markaðs- og kynningarmál

Síðasta starfsár var um margt sérstakt eins og árið þar á undan. Haustönnin einkenndist mjög af sóttvarnaraðgerðum og viðbrögðum við þeim á hverjum tíma en vorönnin var mun líkari því sem gerist í hefðbundnu kennsluári.

Vefur IÐUNNAR

Á vef IÐUNNAR fer fram öflug fræðslumiðlun. Þar eru öll námskeið aðgengileg og skiptir þá ekki máli hvort þau eru staðbundin, á vefsniði eða kennd með fjarkennslu. Á vefnum fer fram skráning á námskeið en einnig öll umsýsla starfsfólks með námskeiðsskráningar, mætingar og flest annað sem varðar framkvæmd námskeiða. Vefurinn er einnig vettvangur fjölbreyttrar fræðslumiðlunar í formi styttri fróðleiksmola, pistla, hlaðvarps og fyrirlestra. Í dag er vefurinn vafalítið mikilvægasta markaðstæki IÐUNNAR. Vefurinn er í stöðugri þróun, bæði sá hluti sem snýr að félagsmönnum og almenningi og einnig þau verkfæri vefsins sem starfsmenn nýta sér.

Markpóstur

Tæplega 8.000 einstaklingar eru á markpóstalistum IÐUNNAR fræðsluseturs og fer fjölgandi. Í hverri viku eru sendir út markpóstar frá öllum sviðum með upplýsingum um námskeið á næstunni og aðra fræðslu, s.s. pistla, hlaðvörp eða annað efni. Markpóstar voru efldir á starfsárinu til að koma betur að fræðslu- og markaðstengdu efni. Útlit þeirra og framsetning var einnig endurskoðuð.

Samfélagsmiðlar

IÐAN fræðslusetur er með viðveru á flestum stóru samfélagsmiðlunum, þ.e.: Facebook, Instagram, Twitter, YouTube og LinkedIn. Efnissköpun og framsetning miðar að sérstöðu hvers miðils fyrir sig. Samsetning hópa er mjög ólík eftir miðlum. Samfélagsmiðlar eru vaxandi þáttur í markaðsstarfi og fræðslumiðlun IÐUNNAR. Umferð frá samfélagsmiðlum yfir á vef IÐUNNAR er orðin mjög mikilvægur þáttur í markaðssetningu og miðlun fræðslu.

Vefauglýsingar og auglýsingar á samfélagsmiðlum

Vefauglýsingar Google eru markvisst nýttar til að markaðssetja námskeið og þjónustu IÐUNNAR. Einnig hefur orðið aukning í notkun á Facebook auglýsingum sem skila góðri umferð á vef, s.s. þegar auglýst eru námskeið. Vefauglýsingar á íslenskum netmiðlum eru nýttar m.a. til að auglýsa raunfærnimat og hefur það skilað ágætum árangri.

Prentmiðlar

IÐAN auglýsir námskeið og þjónustu í staðbundnum miðlum, s.s. landsbyggðarblöðum sem hafa mikla dreifingu og lestur innan sinna svæða. IÐAN auglýsir í fagritum, tengdum okkar greinum og í stærri miðlum, s.s. Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, þegar við á. Það á t.d. við þegar auglýst eru sveinspróf.

Viðburðir

Auk beinnar markaðssetningar tekur IÐAN fræðslusetur þátt í ýmsum viðburðum, s.s. Mannauðsdeginum þar sem IÐAN er reglulega með kynningarbás.

Önnur markaðssetning

Útvarpsauglýsingar eru nýttar þegar það á við og hafa t.a.m. komið að góðum notum til að auglýsa raunfærnimat hjá IÐUNNI.

 Helstu verkefni stjórnar | IÐAN í tölum