image description

Náms- og starfsráðgjöf

Starfsfólki í iðn- og verkgreinum býðst náms- og starfsráðgjöf hjá IÐUNNI til að skoða möguleika sína í námi og starfsþróun. Markmið ráðgjafarinnar er að stuðla að auknum árangri í námi og starfi og er ráðgjöfin gjaldfrjáls.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gerir samning við IÐUNA ár hvert en í honum felst að bjóða fólki á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR voru fimm á starfsárinu og sinntu þeir aðallega raunfærnimati og almennri náms- og starfsráðgjöf. Sú nýbreytni varð að pólskumælandi ráðgjafi var ráðinn til starfa  á árinu 2020 og þar með var hægt að bjóða upp á ráðgjöf á pólsku. Hefur það gefist vel og aukið þjónustu við Pólverja enda mikill fjöldi fólks pólskumælandi  sem starfar í iðngreinum á Íslandi. 

Rafrænt raunfærnimat í þróun

Raunfærnimat er góður kostur fyrir fólk sem hefur reynslu úr atvinnulífinu en stutta formlega skólagöngu. Með því að fara í raunfærnimat gefst einstaklingum tækifæri til að sýna fram á reynslu og færni í starfi og getur matið mögulega stytt nám til sveinsprófs eða starfsréttinda. Inntökuskilyrði í raunfærnimat eru þau að einstaklingur þarf að vera 23 ára eða eldri og hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu úr viðkomandi grein og er þá miðað við fullt starf.

Á starfsárinu var unnið raunfærnimat í 20 greinum og var mikil ásókn í matið. Alls fóru 257 einstaklingar í raunfærnimat á árinu og var það nokkur aukning frá árunum á undan. Vegna Covid -19 var áfram boðið upp á matsviðtöl í raunfærnimati í fjarfundi og hefur það tekist mjög vel. Áfram var unnið að þróun rafræns raunfærnimats og vonast er til að hægt verði að taka það í notkun á vormánuðum 2022. 

Vegna aukins atvinnuleysis var gerður samningur við Vinnumálastofnun vegna ráðgjafar við atvinnuleitendur. Um var að ræða tvo hópa, annars vegar pólskumælandi atvinnuleitendur sem hægt var að bjóða viðtöl á þeirra móðurmáli og hins vegar hóp þar sem voru aðallega Íslendingar. Flestir höfðu verið atvinnuleitendur í 6 mánuði eða lengur. Markmið viðtalanna var meðal annars að greina stöðu ráðþeganna og kynna þau námsúrræði sem voru í boði, þar með talið raunfærnimat.

Heildarfjöldi viðtala á starfsárinu var 2.415