Nýjungar í fræðslustarfi
Á árinu bættust í fræðsluframboð IÐUNNAR, 12 ný vefnámskeið, hlaðvarpið Augnablik í iðnaði, fræðslumolar í formi myndskeiða, örnámskeið og pistlar.
Tengt auknu framboði var þjónusta IÐUNNAR í gegnum mínar síður stórefld og innréttuð góð aðstaða í húsnæði IÐUNNAR til upptöku og vinnslu á mynd- og hljóði. Á starfsárinu var einnig haldið áfram að tækjavæða IÐUNA hvað varðar upptöku- og vinnslubúnað til bæði hljóð- og myndvinnslu.
Vefnámskeið
Á starfsárinu voru unnin og gefin út alls 12 vefnámskeið og eru þau aðgengileg á vef IÐUNNAR. Vefnámskeið eru óháð stað og stund, þ.e. svo lengi sem viðkomandi hefur aðgang að tölvu eða snjalltæki og vefskoðara.
Augnablik í iðnaði
IÐAN fræðslusetur hleypti af stokkunum hlaðvarpinu Augnablik í iðnaði vorið 2020. Viðfangsefni þáttanna er fjölbreytt enda tengist IÐAN mörgum iðngreinum, starfsmönnum og stjórnendum um land allt. Hlaðvarpið er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum, s.s. Soundcloud, Spotify og Apple. Markmiðið með Augnablik í iðnaði er að efla umræðu og vitund um íslenskan iðnað og allt sem viðkemur honum. Leiðarljós hlaðvarpsins er fræðsla, fjör og fagmennska.
Fræðslumolar
Fræðslumolar eru stutt myndskeið þar sem fjallað er á hnitmiðaðan hátt um ákveðið, afmarkað viðfangsefni. Fræðslumolar geta staðið sjálfstætt eða verið hluti af námsefni á námskeiði. Á starfsárinu var framleidd röð fræðslumola um Google lausnirnar og einnig nokkrir fræðslumolar um málmsuðu. Fræðslumolar eiga heima á YouTube rás IÐUNNAR sem er í miklum vexti.