Stjórn IÐUNNAR skipuðu til 15.apríl 2021 þau Eyjólfur Bjarnason, Finnbjörn Hermannsson, Georg Páll Skúlason, Guðmundur Ingi Skúlason, Guðmundur Helgi Þórarinsson, Guðrún Birna Jörgensen, Hilmar Harðarson, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson og Svanur Karl Grjetarsson. Varamaður og áheyrnarfulltrúi var skipuð Ingibjörg Ólafsdóttir.
Á hluthafafundi þann 15. apríl var skipuð ný stjórn. Guðrún Birna Jörgensen vék úr stjórn og Jóhanna Vigdís Arnardóttir áður varamaður tók sæti í stjórn og nýr varamaður kom inn, Gunnar Sigurðsson. Jóhanna Klara Stefánsdóttir tók við sem formaður stjórnar. Stjórn IÐUNNAR fundaði samtals níu sinnum á starfsárinu. Framkvæmdastjórn skipa þau Finnbjörn Hermannsson, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, Georg Páll Skúlason, Eyjólfur Bjarnason auk framkvæmdastjóra og fjármálastjóra. Framkvæmdastjórn fundaði samtals 18 sinnum.
Á liðnu starfsári var rík áhersla lögð á stóraukið fræðsluframboð í fjar- og vefnámi til að mæta þörfum félagsmanna og fyrirtækja á krefjandi tímum. Stafræn sókn IÐUNNAR fræðsluseturs byggir á góðum grunni, samstilltu átaki starfsfólks og markvissu þróunarstarfi.
Þróunarstarfið nær einnig til námsmats og viðurkenninga. Á árinu náðist merkur áfangi en síðastliðið vor voru gefnar út fyrstu stafrænu viðurkenningar til þátttakenda á námskeiðum IÐUNNAR fræðsluseturs.
Sveigjanleiki er lykilorð í allri þjónustu og ráðgjöf og IÐAN fræðslusetur er ávallt tilbúið að leggja sitt af mörkum í þágu samfélagsins. IÐAN tók þátt í átaksverkefni stjórnvalda um að fjölga tækifærum fyrir iðnnema án námssamnings um að komast í vinnustaðanám liðið sumar.
Enn þurftu stórir viðburðir og keppnir sem hafa verið fastir liðir í starfi okkar að bíða vegna sóttvarnarráðstafana. Stærri viðburðir og fögnuðir eru í undirbúningi en á starfsárinu tók IÐAN að sér verkefnastjórn Íslandsmóts iðngreina og stendur að auki á tímamótum og fagnar 15 ára starfsafmæli.
Helstu verkefni stjórnar á liðnu starfsári voru eftirfarandi:
Sumarstörf iðnnema
Vegna atvinnuástands var boðið upp á tímabundna námssamninga fyrir iðnnema yfir sumarið alls í 2 1/2 mánuð á tímabilinu 15. maí - 15. september. Úrræðið var ætlað fyrir nema sem voru skráðir í nám á vor- eða haustönn 2021 og án námssamnings. Markmiðið með átaksverkefninu var að fjölga nemum í vinnustaðanámi. Atvinnulífið tók vel í átaksverkefnið og rúmlega 130 fyrirtæki lýstu áhuga á því að taka við iðnnemum. Alls voru gerðir 130 samningar á tímabilinu.
Skiptireglur félagsins voru staðfestar
Skiptireglan byggir á tekjum sviða, fjölda starfsfólks á hverju sviði og húsnæðisprósentu. Framundan er vinna við að endurmeta skiptireglurnar í framkvæmdastjórn.
IÐAN styðji við nema
IÐAN vill bjóða fram aðstoð við skipulag nýrrar reglugerðar um vinnustaðanám og hefur á liðnu starfsári lagt kapp á að þekking og reynsla starfsfólks IÐUNNAR verði nýtt til stuðnings nemum. Unnið er að útfærslu þessa verkefnis undir vinnuheitinu; Nemastofa.
Vinnustaðagreining
Maskína vann vinnustaðagreiningu fyrir allt starfsfólk IÐUNNAR. Niðurstöðurnar voru mjög góðar, ekki síst er miðað er við erfitt og krefjandi starfsumhverfi vegna Covid-19. Mældist starfsánægja 4,54 af 5 mögulegum.
Stafrænt mark IÐUNNAR
Á liðnu starfsári fór fram mikil þróunarvinna við að þróa stafrænt viðurkenningarferli og fyrstu stafrænu viðurkenningarnar voru prufukeyrðar síðastliðið vor. Nú fá þátttakendur á námskeiðum IÐUNNAR stafræna viðurkenningu að námi loknu. IÐAN fræðslusetur er nú brautryðjandi á Íslandi í því að gera færni, hæfni og þekkingu þeirra sem sækja námskeið sýnilega í stafrænum heimi.
Mat á störfum stjórnar
Mikilvægt er að stjórn leggi reglulega mat á árangur félagsins í heild. Á árinu hófst mat á störfum stjórnar sem er í höndum PwC.
Tillögur um breytt fyrirkomulag stjórnarlauna
Vinnuhópur skilaði tillögum um laun stjórnar IÐUNNAR og sviðsstjórna. Í tillögunum er lagt til að þau sem sitji í stjórn IÐUNNAR fái greidd laun fyrir stjórnararsetu en stjórnarmenn í sviðsstjórnum standi til boða að fara í endurmenntunarferðir og fái ekki greidd laun.
Ísland ekki með á Euro Skills í Graz
Stjórn Verkiðnar ákvað að Ísland tæki ekki þátt í Euro Skills 2021/22 vegna COVID 19.
Verkefnastjórn Íslandsmóts iðngreina
IÐAN tók formlega að sér verkefnastjórn Íslandsmóts iðngreina og hóf undirbúning að Íslandsmóti og Mín framtíð 2022 í Laugardalshöll.
Framkvæmd sveinsprófa
Ákveðið var að stofna vinnuhóp innan stjórnar IÐUNNAR til að skoða framkvæmd sveinsprófa.